Hæ. Í dag fór ég í bíó. Ég og Birta skelltum okkur á "Shorts & Docs" í dag á hinar íslensku heimildarmyndir.
Mynd 1-Magapína.
Myndin hófst með eins konar neysluáróðri og fór svo út upptöku af vel blóðgumsaðri aðgerð á kýr sem var álitin vera orðin háð plastpokum. Magi hennar þurfti að vera hreinsaður og undir talaði sögumaður allan tímann á íslenskuhreims ensku. Mér fannst þetta vera svolítið eins og einhver mynd sem maður væri látinn horfa á í líffræði. Upptakan var greinilega frá fyrri tíð enda ekki í mjög góðum gæðum. Svo sem ágætis hugmynd að snúa plastáti vitlausrar kúar í ádeilu á nútíma neyslu og fíknir. Samt sem áður get ég ekki sagt að mér hafi fundist hún upp á marga fiska, enda hef ég ekkert svo gaman af hráum og vel zoomuðum myndatökum af innyflum og viðbjóði.
Mynd 2-Sagan um Svein Kristján Bjarnason.
Áhugaverð saga um mann sem ég vissi ekki einu sinni að hefði verið til. Þetta var ansi týpísk heimildarmynd með hefðbundnum viðtölum og skotum af gömlum myndum og upptökum inn á milli. Svolítill History Channel blær yfir þessu. Hún var heldur löng að mínu mati og var ég farin að halla mér í stólnum undir lokin. En vönduð og fræðandi heimildarmynd ef maður vildi vita allt um Svein Kristján Bjarnason.
Mynd 3-Ketill.
Myndin um hin stórmerkilega mann Ketil Larsen sem hefur skapað sér nafn sem sérkennilegur listamaður í Reykjavík. Fylgst er með honum í sínum daglegu athöfnum og reynt að sína fram á hversu einstakur og ljóðrænn persónuleiki hann er. Mér fannst myndin skemmtilega tekin og ég hafði gaman að henni, þótt Ketill sjálfur hefur víst ekki lagt blessun sína yfir hana. Hún var heldur stutt og náði kannski ekki að sýna allt sem hann hefur að geyma. Þrátt fyrir það fannst mér þetta ánægjuleg heimildarmynd um einstakan mann.
Mynd 4-Kjötborg.
Að mínu mati besta mynd dagsins. Sýnir gamla vesturbæinn í svo yndislegu ljósi. Gott að vita að það eru enn til ekta kaupmenn í Reykjavík. Myndin sýnir hina venjulegu daga í lífi þeirra bræðra Gunnars og Kristjáns sem hafa rekið í fjöldamörg ár hverfisbúðina Kjötborg. Okkur var veitt innsýn inn í daglegt líf þeirra og fastakúnna búðarinnar. Þeir reka hana af heilum hug og hjarta og virðast gera hvað sem er fyrir kúnna sína. Myndin nær vel að ná stemmingunni í búðinni og er afar ánægjulegt að fylgjast með enda eru ekki margar svona verslanir eftir í Reykjavík. Skotin í myndinni eru óvenju flott miða við að þetta hafa örugglega ekki verið auðveldar tökuaðstæður og þetta gefur allt saman mjög raunverulega mynd af búðinni. Að mínu mati einstaklega hugljúf og skemmtileg mynd sem ég mæli eindregið með.
Já, alltaf gaman í bíó. Ég ætlaði aftur klukkan 23 en var víst búin að lofa pabba að fara með honum á Dark Knight (aftur). Það var líka awwesoome en það vita það allir sem hana hafa séð.
Ég afsaka hvað ég er slappur penni, er alveg úr æfingu en þetta kemur!
Góða nótt!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ekkert að afsaka, þetta er fín færsla. 6 stig.
Post a Comment