Halló! Í tilefni nýafstaðins Óskars langar mig að skrifa um þær vinningsmyndir sem ég hef séð.
SLUMDOG MILLIONAIRE
Ein vinsælasta myndin í sýningu núna, þrátt fyrir að það sé liðið nokkuð síðan hún var frumsýnd.
Hér er fátækt og spilling Indlands kvikmynduð á stórgóðan hátt. Munaðarlaus strákur, Jamal, úr fátækrahverfinu verður milljónamæringur á einni nóttu og þarf að sitja fyrir svörum hjá lögreglu, sem telur hann svindlara. Jamal hefur átt afar afburðaríka ævi og til að útskýra fyrir lögregluþjónunum hvernig hann vissi svörin spurningu fyrir spurningu þarf hann oftar en ekki að rifja upp sársaukafullar minningar frá uppeldisárum sínum.
Þrátt fyrir að vera sjálfuppalinn er Jamal afar heiðarlegur og siðaður strákur og er frásögn hans svo einlæg og hjartnæm að smátt og smátt fara spilltu löggurnar að trúa honum.
Hann vinnur einnig hug og hjörtu áhorfenda eftir því sem líður á, þar sem sögurnar hans taka mann í smá tilfinningaferð, þar sem þær innihalda svik, foreldramissi, ofbeldi og ástir.
Hér sigrar hið góða að lokum, frekar hollywood-legur endir fannst mér en sem samúðafullur áhorfandi hefði maður örugglega ekki viljað sjá hana enda á nokkurn annan hátt.
Ég las einhversstaðar að yngsta kynslóð leikarahópsins voru öll fædd og uppalin í eins fátækrahverfum og sýnd eru í myndinni, en þau þykja sýna alveg stórgóðan leik þrátt fyrir.
Mér finnst engin furða að hún hafi hirt bæði leikstjóraverðlaunin og klippingu því hún nær einhvern veginn að grípa svo vel allar atburarrásir og tilfinningarnar sem fylgja þeim, ásamt því að skapa mikla spennu hjá áhorfenda.
Ég held þetta sé líka mynd sem hæfir vel tímum sem þessum, að sjá einhven sem hefur alist upp við þúsundfalt meiri fátækt en við sem endar svo með ótal peninga og ást lífs síns. Smá svona feel-good í kreppunni. Ég allavega óska Danny Boyle og aðstandendum til hamingju með öll verðlaunin!
MILK
Mynd eftir Gus Van Sant byggð á ævi Harvey Milk sem var hér á fyrri árum einn harðasti baráttumaður samkynhneigðra.
Hér er sögumaðurinn Harvey Milk sjálfur, túlkaður snilldarlega af Sean Penn, sem tekur upp “út úr skápnum” ævi sína á segulband “in case of my assassination” eins og hann segir í upphafi myndarinnar.
Harvey er einstakur karakter, sem kemur fram fyrstu mínútur myndarinnar, þar sem hann pikkar upp sinn seinni tíðar ástmann með mikilli kænsku á lestarstöð.
Hann lýsir fyrir áhorfendum hvernig ástandið var á þessum tíma, 8. áratugnum, fyrir samkynhneigða. Eins og flestir vita var það vægast sagt afar slæmt og hafði Harvey, sem var að skríða yfir fertugt, aldrei lifað lífi sem opinber hommi í upphafi myndarinnar.
Eftir kynni sín við hinn myndarlega Scott, ákveða þeir að flytja til San Fransisco í hið síðar-fræga Castro hverfið, þar sem lífsgæði voru með skárra móti fyrir samkynhneigða.
Strax tóku hljólin að snúast og eftir að þeir opnuðu saman búð í hverfinu fór smátt og smátt að fjölga samkynhneigðum sem héldu sig mikið með Harvey.
Ekki leið á löngu þar til samkynhneigðir í hverfinu fóru að leita eftir breytingum og vildu þeir aðgerðir. Ákvað Harvey að taka málið í sínar hendur og hófst þar með hans stranga barátta í póltiíkinni.
Hann átti eftir að hafa ótrúleg áhrif á réttingi samkynhneigðra í Bandaríkjunum og breytti þar með lífi fjölmargra á þessum fáu árum sem hann var í pólitik. Hann hélt ótrauður áfram þrátt fyrir morðhótanir og ástmannamissi og brást aldrei fólkinu sínu.
Þessi heimildarmynd er alveg ótrúlega vel skrifuð, leikstýrð og útfærð og kemur Sean Penn skemmtilega á óvart með snilldarleik. Hún er mjög fróðleg um baráttu samkynhneigðra á þessum tíma og sýnir hversu stutt er síðan ástandið var svona slæmt. Allavega, biografíkalmynd í hæsta gæðaflokki!
VICKY CRISTINA BARCELONA
Woody Allen mynd af góðum gæðum. Ólíkt síðustu myndum hans sem fjalla um einhvers konar glæparáðgátu, fjallar þessi fyrst og fremst um ástarráðgátu og angist ungs fólks í nútímanum.
Vinkonurnar Vicky og Cristina halda til Barcelona í leit að smá sumarævintýri. Þær eru eins og svart og hvítt þegar kemur að ástarmálum, Vicky fyrirsjáanlega pottþétta týpan sem komin var með unnusta en Cristina rómantískari og fylgdi hjartanu. Samt sem áður enda þær báðar ástfangnar af sama fallega, blóðheita spánverjanum Juan Antonio.
Cristina hefur samband með honum, eftir að Vicky og Juan hafa eytt saman heitri nótt, Cristinu alveg óvitandi, og neyðist því Vicky að glíma við mál hjartans sem hún var afar ókunn. Cristina lendir hins vegar inn í áður stormasamt fyrrum hjónaband Juans með hini gullfallegu Maríu Elenu, hlutverk sem Penelopé Cruz hlaut óskarinn fyrir, afar verðskuldaðan. Á einhvern hátt æxlast það þannig að þau þrjú hefja ástarsamband sem virtist alveg ganga upp, þanga til Cristina fer að hafa vissa bakþanka. Þurfa þær vinkonur því báðar að glíma við alls kynd tilfinningavandamál í þessari ferð, sem þær bjuggust ef til vill ekki við að þurfa gera.
Eftir allar uppákomur ferðarinnar virðast þær stöllur þó snúa aftur til hins venjulega lífs með sömu háttum og áður en þær fóru.
Hópur gæðaleikara fer með aðalhlutverk hér, eins og oft áður í myndum Allens og þykur mér einmitt Penelope frábær sem hin blóðheita og hálfklikkaða Maria Elena. Myndir í sjálfu sér fjallar fyrst og fremst um samskipti þessara fjögurra manneskja, Maríu Elenu, Juans Antonios, Vickys og Cristinu, og er þetta allt mjög í anda Allens.
Ekki beint hans besta verk, en vel þess virði að sjá.
Jæja, þetta eru þær myndir sem ég hef séð af verðlaunalistanum í ár, fyrir utan Dark Night sem ég er búin að skrifa um. Mjög gott.
-h
1 comment:
Ágæt færsla. 8 stig.
Post a Comment