Thursday, April 30, 2009

Kvikmyndagerd 2008-2009


Kvikmyndagerð 2008--9


Ég valdi Eðlisfræðibraut 2 fyrst og fremst út af valinu og leist mjög vel á kvikmyndagerð, þar sem það var mjög ólíkt flestu öðru í boði. Einnig finnst mér rosalega gaman að horfa á kvikmyndir svo kvikmyndafræði rann ljúflega niður. 

Ég vissi ekki alveg hvernig væntingar ég ætti að hafa til fagsins. Hélt að við myndum búa til stuttmyndir og læra kvikmyndasögu fyrst og fremst. Sem var reyndar ekki svo fjarri lagi.

Í upphafi námskeiðsins var okkur sett fyrir það verkefni að gera örmynd. Ég var í góðum strákahóp, enda stelpur í miklum minnihluta. Við hittumst einn laugardagsmorgun og þá voru strákarnir nokkurn veginn komnir með hugmynd um hvernig mynd þetta ætti að vera. Ég var látin leika aðalhlutverkið, enda primo leikkona. Útkoman var myndin um lötustelpuna sem við sáum í haust. Verkefnið gekk snuðrulaust fyrir sig og var bara nokkuð gaman.

Annars voru kennslustundirnar fyrst og fremst glærushow með fyrirlestrum, sem var því miður ekki svo auðvelt að fylgjast með í fyrstu tímum á morgnanna. Þar sem ég er óregluleg voru þetta einu morguntímar viku minnar og átti ég því stundum erfitt með að vakna, því miður. En ég mætti þó alltaf í föstudagsbíótímana, sem mér fannst mjög skemmtilegir. Sá myndir af öllum tegundum sem ég hefði annars öruggleg aldrei séð. Margar mjög góðar, aðrar mjög áhugaverða, sumar ekkert svo skemmtilegar, en það er nú bara smekkur fólks. 

Svo kom að fyrirlestravinnu og nú var það stelpuhópur sem samanstóð af mér, Birtu, Írisi og Birni Ívari. Við tókum eina góða helgi í þetta og gekk það bara ansi vel og fluttum við erindi um hinn sérkennilega Dario Argento.

Okkur var sett fyrir næsta kvikmyndaverkefni sem var að gera heimildarmynd. Þetta var því miður á tíma þar sem jólaprófin nálguðust og mikið var að gera í skólanum og enginn hópur gerði neitt í neinu. Verkefnið dróst yfir áramót og breyttist í heimildamynd/örmynd/tónlistarmyndband. Í þetta skipti var ég í öðrum strákahóp ásamt Andra Gunnari, Halla, Héðni og Birni ívari. Því miður gekk þessum hópi eitthvað illa að koma sér saman um hittingatíma og þegar við fengum myndavéina var aðeins einn af hópsmeðlimum mættur í skólann og því varð einhvern veginn ekkert úr neinu.

Síðar kom að seinni fyrirlestrarvinnu með sama hóp mínus Björn Ívar. Við stelpurnar lögðum í aðra helgarvinnu um herra John Waters sem heppnaðist vel og var skemmtilegt að gera. 

Lokst var komið að final verkefninu sem var stuttmynd í fullum gæðum. Sami hópur var samansettur og var ég svoldið stressuð að enn og aftur yrði ekkert að neinu. Sem betur fer knúði samviskubit af völdum fyrri iðjuleysi okkur til aðgerða og lögðumst við meirað segja í að gera hina merkilegu örmynd. Tökurnar voru bara nokkuð skemmtilegar og ég fékk að vera með gúmmíkjúklingagrímu í Öskjuhlíðinni, sem var eitthvað nýtt. 

Þar með er verkefnum vetrarins nokkurn veginn upptalin. Við enduðum þetta svo á lokaprófinu. Ég og Birta hittumst og lærðum saman föstudagskvöldið og héldum svo gallvaskar í prófið laugardagsmorguninn. Spurningarnar voru sanngjarnar og mér gekk vel þangað til að kom að handritahlutanum. Ég byrjaði á því þegar klukkutími var eftir og hélt ég hefði nógan tíma en svo tók þetta miiiklu lengri tíma og endaði með korter eftir að prófinu og aðeins búin með svona 5% af 40%. 

Af því sem ég myndi vilja breyta væri kannski vægi allra þessara hópverkefna. Það er ekkert auðvelt að hittast margir saman sem búa út um allt og eru í vinnu og skóla og íþróttum og komast bara á ákveðnum tímum sem passa oftar en ekki ekki saman. Auðvitað lærir maður mest á því að gera og mér fannst það eitt að því skemmtilegasta í vetur, en þetta mætti kannski vega aðeins minna og í staðinn mættu koma til dæmis skyndipróf. Held það væri fínt að taka eitt lítið skyndipróf á sitthvorri önn þar sem við gætum til dæmis æft þennan handritahluta sem kemur á prófinu. Einnig finnst mér bloggið kannski gilda einum of mikið. Mér finnst ekkert svo auðvelt að túlka kvikmyndarnir á blaði, mun auðveldara að tala um þær. Veit samt ekki hvenig það ætti að vera gert öðruvísi. 

Fagið fékk vissulega að líða fyrir það að vera í fyrstu tímum, þá sérstaklega á mánudögum þar sem oft var slæleg mæting. Hefði hugsanlega mátt setja glærushowið inn á myschool fyrr svo fólk gæti séð hverju það missti af.

Ég hefði einnig viljað læra meiri kvikmyndasögu, fannst frekar leiðinlegt að við náðum ekki að fara yfir nýbylgjuna og það sem væri á gangi í nútímanum. 

Vil hins vegar gefa thumbs up fyrir leikstjóraheimsóknirnar sem voru allar mjög skemmtilegar!

En allt í allt skemmti ég mér vel í vetur og hafði gaman af að fá nasasjón af kvikmyndafræði og víkka kvikmyndasjóndeildarhringinn. Ætla nýta mér listana sem við fengum af leiksjórum og must-see myndum og verða vel kvikmyndalæs í sumar. Jebb.



KVEÐJA HELGA


Tuesday, March 31, 2009

blade runner

Blade Runner er bandarísk sci-fi mynd frá 1982, leikstýrð af Ridley Scott með Harrison Ford, Rutger Hauer og Sean Young í farabroddi.

Myndin á að eiga sér stað árið 2019 í Los Angeles þegar svokallaðar eftirhermur (replicants), sem eru óaðgreinanlegar frá venjulegum manneskjum, eru notaðar í hættulega vinnu fyrir nýlendur jarðar í geimnum úti.

Eftirhermur hafa verið gerðar ólöglegar á jörðinni og hafa sérstakar löggur, kallaðar “blade runners” verið fengnir til að veiða uppi og eyða þessum eftirhermum.

Þá kemur aðalhetjan Harrison Ford við sögu, fyrrum Blade Runner sem hefur hálfpartinn sagt sig lausan úr störfum og er plataður í eitt lokaverkefni, við að ná hættulegum hópi eftirherma sem viðhaldast í Los Angeles.

Það áhugaverðasta við myndina sem mér fannst við að horfa á hana núna, árið 2009 er að hún á að gerast eftir aðeins 10 ár. Eins og flestar myndir sem eiga að gerast í framtíðinni, sem gerðar voru fyrir 30 árum er framtíðin ótrúlega sci-fi og framúrstefnuleg. Til að mynda í Back to the Future eru allir mætti á svifbretti árið 2015 eða eitthvað álíka. Sambærileg er í Blade Runner þessar eftirhermur, það að tæknin sé orðin svo framúrstefnuleg að við getum skapað nýja manneskju, fullmótaða og gefið henni heilar æviminningar. Það verður mjög ólíklega hægt eftir 10 ár. Hins vegar er Blade Runner ólík að því leyti að hún vakti á sínum tíma upp umhugsun um þau vandamál sem gætu fylgt næstu áratugum, eins og alheimsvæðingu, breyttu veðurfari og genaumbreytingum. Hún sýnir því mun áhugaverðari sýn á framtíðina en margar aðrar myndir með svipaðri hugmynd.

Myndin varð ekki mjög vinsæl þegar hún kom út, en eftir því sem tíminn leið hefur hún orðið eins konar költ klassík og tilheyrir hinni svokallaðri “neo-noir” tegund mynda og er þar í leiðandi flokki.

Ridley Scott hefur útnefnt hana sem sennilega sitt persónulegasta og fullkláraðasta verk, og eru þar stór orð þar sem hann leikstýrði einni frægustu sci-fi mynd allra tíma, Alien ásamt mörgum öðrum frægum.

Blade Runner hefur allavega markað sinn sess í kvikmyndaheiminn og á sér traustan áhorfendahóp sem sífell bætist í.



THE THING

The Thing er sci-fi hryllingsmynd frá árinu 1982 úr leiksjórn John Carpenters.

Myndin fjallar um einhvers konar hamskiptandi geimveru sem myrt hefur norskt rannsóknarteymi sem statt var á” rannsóknarstöð um hávetur og ræðst síðan á amerískt rannsóknarteymi sem hafði verið að rannsaka morðið.

Aðal töffarinn í myndinni, R. J. MacReady er leikinn af hinum myndarlega Kurt Russel, og í upphafi myndarinnar, eftir að crewið fór að hafa einhverjar grunsemdir um norsku rannsoknarstöðina, heldur hann ásamt Dr. Copper í leiðangur til norsku búðanna til að athuga málið. Þeir koma að stöðinni gjörónýtri og snauð af öllu starfsfólki. Það eina sem þeir finna er einhvers konar afmyndað fyrirbæri sem þeir taka með sér til baka fyrir frekari rannsóknir. Við rannsóknir á fyrirbærinu kemst crewið að því að þrátt fyrir að vera gjörsamlega afmyndað og ógeðslegt inniheldur það að því er virðist venjuleg líffæri.

Eftir því sem líður á atburðarrásina taka grunsemdir að vakna milli allra í crewinu því fleiri og fleiri skringilegri atburðir taka sér stað og að lokum treystir enginn engum.

Eftir að geimveran hafði smitað nokkra í hópnum og drepið ákveða þeir sem eftir eru og hafa fullvissað hvorn annan um að vera mannlegir að eina leiðin til að eyða fyrirbærinu er að sprengja upp allar búðirnar með dýnamiti. Eitthvað ganga hlutirnir þó ekki alveg upp og endar myndin á að hetjan MacReady drepur kvikyndið með dýnamíti og kviknar þar með í öllum búðunum og þær gjöreyðast.

Í lok myndarinnar sést MacReady skála til drykkjar ásamt einum félaga sínum sem eftir var lifandi á meðan þeir horfa á búðirnar brenna.

Á þeim tíma sem myndin var gerð hafa tæknibrellurnar sennilega þótt með þeim bestu og ógeðslegustu, en núna 27 árum síðar fannst mér sum atriðin hálfskopleg. Vissulega er mikið af ógeðslegum fyrirbærum og allskonar vibba gunki sem lekur úr þeim en þetta var einum of óraunverulegt þannig maður fengi klígjuna. Þess vegna verður maður sennilega að hafa í huga hvenær myndin var gerð og hún hafi verið ætluð sem óttaleg hryllingsmynd, en einhver gaman “gore” mynd eins og hún myndi sennilega vera ef hún væri að koma út með þessum tæknibrellum í dag.

Kurt Russel fannst mér ofursvalur í hlutverki MacReady og var flestallur leikaraskapur í myndinni ágætur. Þetta er algjört möst see fyrir alla sci-fi nölla, en annars ættu flestir að hafa gaman af því að sjá þessa mynd, enda ansi áhugaverð.

Monday, March 30, 2009

maaaad detective



Mad Detective er mynd frá árinu 2007 úr smiðju leiksjóranna Wai Ka-Fai og Johnnie To. Þetta er spennu-glæpadrama sem á sér stað í stórborginni Hong Kong og fjallar um líf fyrrverandi lögreglumannsins Chan Kwai-Bun. Chan hafði verið látinn hætta störfum eftir að hafa að því er virtist misst vitið og skorið af sér eyrað. Hann kveðst geta séð innri persónuleika fólks, sem séu margskonar.

Nokkrum árum seinna er rannsóknalögreglumaðurinn Ho Ka-On að rannsaka hvarf samstarfsmanns sín Wong Kwok-Chu, sem hvarf á leiðangri með félaga sínum KO Chi-Wai. Hann hafði verið horfinn í 18 mánuði og hafði byssan hans verið notuð í mörgum vopnuðum ránum.

Þegar þarna er komið býr Chan í nokkurs konar einangrun frá umheiminum með ímyndaðri konu sinni May Cheung. Ho leitar til hans í von um að hann geti leist ráðgátuna um Wong.

Chan sér að persónuleiki Ho er í raun og veru lítill og skelkaður strákur, og í hver skipti sem maður sér Ho með hans augum er karakterinn leikinn af unglingsstrák.

Á meðan rannsókninni stendur stingur Chan af með vopn Ho og persónuskilríki hans. Chan kemst að því að Ko hafði verið 18 mánuðum áður rændur vopni sínum af indverja og því ákveðið að drepa Wong og stela vopninu hans. Þegar Chan sér Ko sér hann í raun 7 mismunandi karaktera, og er þá hugurinn táknaður af kaldrifjaðri viðskiptakonu.

Ho missir allt sitt traust á Chan og endar bíómyndin á loka bardagasenu í vöruskemmu þar sem Ho, sem gengist hefur til liðs við Chi-Wai, skýtur Chan, en er síðan sjálfur skotinn af Chi-Wai, eins og Chan hafði áður spáð fyrir. Að lokum nær þó Chan að myrða vonda kallinn, Chi-Wai, og má segja að hann hafi leyst og séð um málið sem sett var í hendurnar á honum.

Myndin er afar vönduð og frumleg en fyrst og fremst mjög skemmtileg. Það tók mig þó smá stund að komast alveg inn í hana og átta mig á því sem var að gerast, en það gerar hana nú bara betri fyrir vikið. Mörg ansi góð spennuatriði eins og gerast best í Hong Kong. Þessi mynd hefur unnið til allnokkra verðlauna og þykir með frumlegri og betri myndum sem komið hafa út nýlega, og slæ ég ekki hendinni á móti þvi áliti.

Wednesday, February 25, 2009

Óski 2009

Halló! Í tilefni nýafstaðins Óskars langar mig að skrifa um þær vinningsmyndir sem ég hef séð.

SLUMDOG MILLIONAIRE

Ein vinsælasta myndin í sýningu núna, þrátt fyrir að það sé liðið nokkuð síðan hún var frumsýnd.

Hér er fátækt og spilling Indlands kvikmynduð á stórgóðan hátt. Munaðarlaus strákur, Jamal, úr fátækrahverfinu verður milljónamæringur á einni nóttu og þarf að sitja fyrir svörum hjá lögreglu, sem telur hann svindlara. Jamal hefur átt afar afburðaríka ævi og til að útskýra fyrir lögregluþjónunum hvernig hann vissi svörin spurningu fyrir spurningu þarf hann oftar en ekki að rifja upp sársaukafullar minningar frá uppeldisárum sínum.

Þrátt fyrir að vera sjálfuppalinn er Jamal afar heiðarlegur og siðaður strákur og er frásögn hans svo einlæg og hjartnæm að smátt og smátt fara spilltu löggurnar að trúa honum.

Hann vinnur einnig hug og hjörtu áhorfenda eftir því sem líður á, þar sem sögurnar hans taka mann í smá tilfinningaferð, þar sem þær innihalda svik, foreldramissi, ofbeldi og ástir.

Hér sigrar hið góða að lokum, frekar hollywood-legur endir fannst mér en sem samúðafullur áhorfandi hefði maður örugglega ekki viljað sjá hana enda á nokkurn annan hátt.
Ég las einhversstaðar að yngsta kynslóð leikarahópsins voru öll fædd og uppalin í eins fátækrahverfum og sýnd eru í myndinni, en þau þykja sýna alveg stórgóðan leik þrátt fyrir.

Mér finnst engin furða að hún hafi hirt bæði leikstjóraverðlaunin og klippingu því hún nær einhvern veginn að grípa svo vel allar atburarrásir og tilfinningarnar sem fylgja þeim, ásamt því að skapa mikla spennu hjá áhorfenda.

Ég held þetta sé líka mynd sem hæfir vel tímum sem þessum, að sjá einhven sem hefur alist upp við þúsundfalt meiri fátækt en við sem endar svo með ótal peninga og ást lífs síns. Smá svona feel-good í kreppunni. Ég allavega óska Danny Boyle og aðstandendum til hamingju með öll verðlaunin!




MILK

Mynd eftir Gus Van Sant byggð á ævi Harvey Milk sem var hér á fyrri árum einn harðasti baráttumaður samkynhneigðra.

Hér er sögumaðurinn Harvey Milk sjálfur, túlkaður snilldarlega af Sean Penn, sem tekur upp “út úr skápnum” ævi sína á segulband “in case of my assassination” eins og hann segir í upphafi myndarinnar.

Harvey er einstakur karakter, sem kemur fram fyrstu mínútur myndarinnar, þar sem hann pikkar upp sinn seinni tíðar ástmann með mikilli kænsku á lestarstöð.

Hann lýsir fyrir áhorfendum hvernig ástandið var á þessum tíma, 8. áratugnum, fyrir samkynhneigða. Eins og flestir vita var það vægast sagt afar slæmt og hafði Harvey, sem var að skríða yfir fertugt, aldrei lifað lífi sem opinber hommi í upphafi myndarinnar.

Eftir kynni sín við hinn myndarlega Scott, ákveða þeir að flytja til San Fransisco í hið síðar-fræga Castro hverfið, þar sem lífsgæði voru með skárra móti fyrir samkynhneigða.

Strax tóku hljólin að snúast og eftir að þeir opnuðu saman búð í hverfinu fór smátt og smátt að fjölga samkynhneigðum sem héldu sig mikið með Harvey.

Ekki leið á löngu þar til samkynhneigðir í hverfinu fóru að leita eftir breytingum og vildu þeir aðgerðir. Ákvað Harvey að taka málið í sínar hendur og hófst þar með hans stranga barátta í póltiíkinni.

Hann átti eftir að hafa ótrúleg áhrif á réttingi samkynhneigðra í Bandaríkjunum og breytti þar með lífi fjölmargra á þessum fáu árum sem hann var í pólitik. Hann hélt ótrauður áfram þrátt fyrir morðhótanir og ástmannamissi og brást aldrei fólkinu sínu.

Þessi heimildarmynd er alveg ótrúlega vel skrifuð, leikstýrð og útfærð og kemur Sean Penn skemmtilega á óvart með snilldarleik. Hún er mjög fróðleg um baráttu samkynhneigðra á þessum tíma og sýnir hversu stutt er síðan ástandið var svona slæmt. Allavega, biografíkalmynd í hæsta gæðaflokki!

VICKY CRISTINA BARCELONA

Woody Allen mynd af góðum gæðum. Ólíkt síðustu myndum hans sem fjalla um einhvers konar glæparáðgátu, fjallar þessi fyrst og fremst um ástarráðgátu og angist ungs fólks í nútímanum.

Vinkonurnar Vicky og Cristina halda til Barcelona í leit að smá sumarævintýri. Þær eru eins og svart og hvítt þegar kemur að ástarmálum, Vicky fyrirsjáanlega pottþétta týpan sem komin var með unnusta en Cristina rómantískari og fylgdi hjartanu. Samt sem áður enda þær báðar ástfangnar af sama fallega, blóðheita spánverjanum Juan Antonio.

Cristina hefur samband með honum, eftir að Vicky og Juan hafa eytt saman heitri nótt, Cristinu alveg óvitandi, og neyðist því Vicky að glíma við mál hjartans sem hún var afar ókunn. Cristina lendir hins vegar inn í áður stormasamt fyrrum hjónaband Juans með hini gullfallegu Maríu Elenu, hlutverk sem Penelopé Cruz hlaut óskarinn fyrir, afar verðskuldaðan. Á einhvern hátt æxlast það þannig að þau þrjú hefja ástarsamband sem virtist alveg ganga upp, þanga til Cristina fer að hafa vissa bakþanka. Þurfa þær vinkonur því báðar að glíma við alls kynd tilfinningavandamál í þessari ferð, sem þær bjuggust ef til vill ekki við að þurfa gera.

Eftir allar uppákomur ferðarinnar virðast þær stöllur þó snúa aftur til hins venjulega lífs með sömu háttum og áður en þær fóru.

Hópur gæðaleikara fer með aðalhlutverk hér, eins og oft áður í myndum Allens og þykur mér einmitt Penelope frábær sem hin blóðheita og hálfklikkaða Maria Elena. Myndir í sjálfu sér fjallar fyrst og fremst um samskipti þessara fjögurra manneskja, Maríu Elenu, Juans Antonios, Vickys og Cristinu, og er þetta allt mjög í anda Allens.

Ekki beint hans besta verk, en vel þess virði að sjá.


Jæja, þetta eru þær myndir sem ég hef séð af verðlaunalistanum í ár, fyrir utan Dark Night sem ég er búin að skrifa um. Mjög gott.

-h

Wednesday, February 18, 2009

topppplisti

Eftir mikla frestun, sem ég er geðveikt góð í langar mig að skrifa færslu um bestu bíómyndir 2008, að mínu mati.

THE DARK NIGHT
Fyrsta myndin sem mér datt í hug, eins og kannski mörgum. Ég get ekki sagt a
ð ég hafa verið mikill Batman fan á mínum fyrri aldursárum, en þessi mynd VÁ. Ég labbaði sem sagt inn með í raun núllvæntingar, eða bjóst við þessari klassísku bandarísku hasarmynd. Það tók þó fljótt að breytast þegar leið a myndina.


Hún nær strax að grípa mann með vel útfærðum og sjónsnilldarlegum hasar, svo myrk og óhugnaleg á tímum, ásamt því að vera fyndin og afar spennandi. Það fer ekki á milli mála að Heath Ledger vann þvílíkan leikarasigur með þessari mynd ( og okkur finnst það ekki bara af því hann er dauður!) sem hinn ógeðfelldi og kaldhæðni "Joker".

Mætti segja að visst Joker æði hafi tekið yfir ungmenni hér á landi, fannst mér. Ungir menn jafnt sem stúlkur voru útötuð í varalit að hreyta snilldarlinum úr myndinni. Ekki furða, þessi karakter var ógleymanlegur. Hér tókst Hollywood kóngunum ótrúlega vel til, gerðu allt sem vel er hægt að gera við hasarmynd fullkomlega. Get ekki beðið eftir að sjá hana aftur, ég á bara ekki ennþá fyrir henni...verð að fá hana lánaða hjá einhverjum..jáá.

JUNO

Ekta amerísk feel-good mynd. Táningsstúlkan Juno gerist ólétt af slysni og flestir vita rest. Ég held að flestir haft

vissa unun af þessari mynd, las reyndar að þetta hefði ekki veirð tebollinn hans Sigga Palla, en hún er kannski ekki hvers manns fæða.

Juno er 16 ára töffari, hnyttin og mjög kúl með allt sem gengur á. Hún á heldur afslappaða fjölskyldu og áhugaverða vini, sem taka óléttunni heldur léttúðlega. Kannski of létt fannst mér á köflum. En myndin er full af skemmtilegum samræðum

og góðri tónlist sem gerir hana auðvelda að elska. Allt gengur upp á endanum, en ekki á þennan týpíska ameríska máta, heldur meira á þenna “Little miss sunshine” máta, heldur raunverulegri. Labbaði út af þessari mynd með svipaða tilfinningu og LMS.

Hin unga Ellen Page og hinn lúðalega mynd

arlegi Micheal Cera gera garðinn frægan með góðum leikaraskap og finnst mér leikarahópurinn allur fitta mjög vel saman. Þessa mynd keypti ég allavega á dvd (eða hvort ég fékk hana gefins, hvað man maður) og hef horft á hana nokkrum sinnum til að komast í létt skap.

BURN AFTER READING

Þar sem ég er mikill Coen-bræðra aðdáandi var ég búin að bíða spennt eftir þessari. Þess vegna greip ég tækifærið þegar ég var stödd

í Berlín að sjá hana, áður en hún kom til sjálfs Íslands.

Myndin stóðst undir mínum væntingum og er þetta svo sannarlega hin hefðbundna gaman Coen-mynd með frábærum húmor og þessum ógleymanlegum karakterum. Eins og í myndum eins og Fargo og The Big Lebowski, er hér á ferð ósköp venjulegt fólk sem flækist óvænt í alls konar vitleysu sem vindur upp á sig og hefur skoplegar afleiðingar. Enn og aftur tekst þeim að safna saman afbragðs leikarahóp sem stendur sig mjög vel í myndinni. Allavega, cudos til Coen bræð

ra!




PERSEPOLIS

Snilldarleg úrfærsla á frönsku teiknimyndasögunum.

Marji fylgir okkur í gegnum misgóða ævi sina sem írönsk stelpa sem flýja verður heimili sitt, þó allt með skoplegum blæ. Það er orðið svoldið síðan ég sá hana svo hún er ekki alveg fersk í minnum, en það sem ég man var að hún varð að flýja Íran og settist að í Danmörku þar sem hún þurfti að feisa vissan kúltur mismun, verandi múslími með slæðu á höfðinu og þess háttar. Samt náði hún að eiga nokkuð hefðbundin uppeldisár með tilheyrandi strákavandamálum og fleiri. Myndin er í raun bara lifandi myndasaga, heldur myrkir litir og teiknað. Hún er mjög fyndin og yndisleg, einnig sorgleg á köflum, ásamt því gefur hún okkur einnig nokkurt innsýn inn í líf nýbúa á norðurlönd. Sniðug fyrir krakka í frönskunámi!

QUANTUM OF SOLACE

Varð nú að skella þessari með. Hinn ljóshærði Bond mættir aftur til leiks með nýju ofurbeibi. Þessi mynd er einn rosalegur hasarrússíbani, þvílík áhættuatriði sem halda manni á tánum allan tímann. Mér fannst hún ekki alveg jafn mikil bomba og Casino Royal, kannski af því að þá kom Craig okkur svo skemmtilega á óvart. En hún stóð fyrir sínu sem hin hefðbundna Bond mynd með tilheyrandi thriller, gellum og byssuskotum. Kannski ekki meistaraverk kvikmyndalegaséð en flott skemmtun og stendur allavega upp úr hjá mér 2008.


Af einhverjum ástæðum dettur mér ekki meir í hug að sinni. Kem kannski með aðra færslu ef eitthvað epískt kemur mér til hugar.
Helga

Monday, February 2, 2009

franska kvikmyndahátíðin

Ég var svo heppin að sjá tvær myndir af frönsku kvikmyndahátíðinni, franska söngleikinn Les Chansons d'Amour og og kanadaísku C.R.A.Z.Y.
Ég ætla hinsvegar að skrifa um Crazy, þar sem ég hafði mun meiri ánægju af henni.

C.R.A.Z.Y

Í myndinni er fylgst með ævi kanadíska stráksins Zacharys allt frá móðurkviði, bókstaflega. Hann fæðist inn í hóp stórrar fjölskyldu á jóladag árið 1960. Vegna þessa fæðingadags síns hefur hann ávalt hatað jólin og gremst guði fyrir að hafa látið hann fæðast þennan dag, þar sem hann fékk aldrei að eiga almennilegan afmælisdag.
Hann lýsir bræðrum sínum eftir persónueinkennum sem fylgja þeim til fullorðinsára í myndinni, Antoine fékst aðalega við íþróttir, Christian er "sá gáfaði", stöðugt lesandi hvað sem hendi var næst og Raymond er uppreisnarseggur með unglingaveikina, sem Zac virðist fyrirlíta mest af þeim öllum.
Hann átti góða móður sem sýndi þeim bræðrunum öllum skilyrðislausa ást. Einnig átti hann upp að ca. 7 ára aldri góðan föður sem sýndi honum mikla væntumþykju og sem Zac leit mikið upp til.
Snemma á æviárum Zacs fór þó að birtast vottur af vissum hluta af honum sem var eitt það síðasta sem nefna mátti á þessum árum, samkynhneigð. Á þessum tíma var samkynhneigð rétt svo að brj
ótast fram, fólk vissi af því en vildi helst ekki heyra á það minnst og það þótti þvílík skömm að koma nálægt þessum lífshætti, hvað þá ala upp barn sem reyndist vera samkynhneigt. Því gjörbreytist viðhorf og framkoma föður Zacs gagnvart honum eftir að hann fær þá hugmynd að sonur hans gæti hugsanlega verið samkynhneigður.
Unglingsárin reyndust Zac vissulega erfiðust þar sem duldar tilfinningar samkynhneigðinnar voru stöðugt að reyna að brjótast fram á sjónarsviðið. Þrátt fyrir að það væri kominn 8. áratugurinn var þetta afar illa liðið og þráði Zac ekkert heitar en að vera bara venjulegar og geta gert föður sínum til geðs. Þráin var svo heit að hann ákveður að loka gjörsamlega á þessar hugsanir, bælir þær niður fram yfir tvítugsaldur og nær meirað segja að halda kærustu allan þann tíma. En sannleikurinn kemur oftar en ekki fram á endanum og gefst Zac loks upp á feluleiknum og opnar sig fyrir föður sínum, sem bregst að sjálfsögðu hinn versti við. Faðir hans segir honum basically að hann vilji heldur ekki vita af tilvist hans heldur en að viðurkenna samkynhneigð hans. Svo sterk hefur skömmin sem fylgdi þessu á þessum tíma verið.
Á meðan öllu þessu stóð hafði Raymond bróður Zacs fallið í djúpa gryfju eiturlyfjaneyslu sem dróg hann að lokum til dauða. Látið tekur mjög þungt á foreldrana og bræðurnar, þrátt fyrir að Raymond hafði verið til stöðugra vandræða frá æsku.
Það er mjög hjartfólgið moment í myndinni þegar faðirinn áttar sig á því, eftir að hafa jarðað eitt barnið sitt, að ekkert er þess virði að finna sársauka þess að missa afkvæmi og ákveður því að taka Zac opnum örmum eins og hann er.
Mér fannst þessu mynd frábær að mörgu leyti. Það er mjög skemmtilegt að sjá tíðarandann á þessum tíma, áttunda áratugnum, með tileyrandi klæðnaði og tónlist á borð við Pink Floyd og David Bowie. Einnig áhugavert að sjá hversu stutt er síðan meirihluti fólks leit á samkynhneigð sem einhvers konar sjúkdóm og merki um lélegt uppeldi. Þó að vísu er auðvitað fullt af fólki í heiminum í dag sem er enn á því máli.
Zac á mjög sérstakt og náið samband við móður sína sem veitir honum ávalt alla sína ást og virðist kæra sig kollótta um meinta samkynhneigð hans. Miða við hvernig faðir hans lét við hann, er móðirin örugglega ástæða þess að hann komst sæmilega í gegnum unglingsárin. Hann virðist ekki eiga náið samband við neinn af bræðrum sínum, enda kemur fram snemma í myndinni að honum finnist þeir allir frekar mikil fífl. Mestu samskipti sem koma fram í myndinni eru sennilega við bróðir hans, Raymond. Þrátt fyrir að Raymond hafði ævinlega komið heldur illa fram við bróðir sinn og uppnefnt hann homma, þykir Zac mjög vænt um hann þó hann sýni það aðeins í verki. Hefur þá sennilega þessi skilyrðislausa ást sem móðir hans aldi hann upp í náð í gegnum hann.
Þessi mynd tekur því vel á alls konar flóknum fjölskyldumálum og persónuvangaveltum. Hún er mjög vel gerð, bæði fyndin og sorgleg, en fyrst og fremst bara góð mynd sem ég allavega pældi í fram á næsta dag.